Innlent

Fyrrverandi öryggisvörður: Leituðu að sprengjum og eltu bíla

Valur Grettisson skrifar
Bandaríska sendiráðið. Það var ekki tekið út með sældinni að aka hægt framhjá því.
Bandaríska sendiráðið. Það var ekki tekið út með sældinni að aka hægt framhjá því.

„Ég vann þarna í tæpt ár og sá að þetta var ekki eðlilegt," segir fyrrverandi starfsmaður Securitas sem vann við öryggisgæslu í bandaríska sendiráðinu árið 2002. Hann treystir sér ekki til þess að koma fram undir nafni.

Hann fullyrðir að ómerktur bíll, með óeinkennisklæddum starfsmönnum Securitas, hafi veitt bifreið eftirför sem ók of hægt framhjá sendiráðinu.

Þá segir starfsmaðurinn fyrrverandi að hann ásamt vinnufélögum sínum hafi leitað að sprengjum undir bílum í nágrenninu.

„Við fengum sérstakan spegil til þess, svo áttum við að láta yfirmann öryggismála í sendiráðinu vita ef við fyndum sprengjuna," segir starfsmaðurinn fyrrverandi og áréttar að hvorki hann né kollegar hans hafi hlotið sérstaka þjálfun í að leita að sprengjum eða bregðast við ef slík skyldi finnast.

Hann segir tvö öryggisteymi hafi verið starfrækt í sendiráðinu, eitt teymið leitaði að sprengjum og kannaði næsta umhverfi, hitt teymið var í ómerktri bifreið.

Öryggisverðirnir sem sátu í bílnum voru óeinkennisklæddir að sögn fyrrverandi starfsmannsins. Hann fullyrðir að í eitt skiptið hafi bílateymið veitt bifreið eftirför sem ók of hægt, að þeirra mati, framhjá sendiráðinu.

Þeir eltu svo bílinn niður að Sæbraut þar sem starfsmennirnir eiga að hafa gefið ökumanninum merki með handapati um að stöðva bifreiðina.

Ökumaðurinn ansaði ekki bendingum bílateymisins heldur hélt för sinni áfram. Þá munu öryggisverðirnir hafa kallað á lögreglu sem svaraði kallinu og stöðvaði bílinn á Snorrabrautinni vegna grunsemda öryggisvarðanna.

„Þar var ökumaðurinn víst yfirheyrður af lögreglunni," segir starfsmaðurinn fyrrverandi.

„Mér fannst þetta roslega paranója á sínum tíma," segir maðurinn sem starfar í dag sem forritari erlendis. Hann segist hafa enst í starfinu í tæpt ár eftir nám.

„Það endaði nú með því að ég hætti í samráði við yfirmennina," segir öryggisvörðurinn fyrrverandi sem þá var rétt rúmlega tvítugur.

Hann segir margt hafa verið undarlegt við eftirlit öryggisvarða Securitas í bandaríska sendiráðinu.

Hann segist til að mynda hafa blöskrað þegar hann sá útprentun úr öryggismyndavél af pari af mið-austurlenskum uppruna, sem hann vill meina að hafi verið venjulegir ferðamenn, upp á vegg í sendiráðinu.

„Svo stóð að við ættum að láta vita ef við sæjum parið aftur í nágrenni sendiráðsins," segir hann og bætir við: „Mér fannst þetta nú pínu skrýtið."

Sjálfur segist hann ekki vita hvað var gert við upplýsingar sem Bandaríkjamenn söfnuðu. Þá segist hann ekki geta lagt mat á það hvort talsmenn sendiráðsins hafi verið að segja ósatt með yfirlýsingum sínum varðandi eftirlitssveitina.

Sendiherra Bandaríkjanna, Luis E. Arreaga sagði í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi að enginn hefði verið eltur í þessu eftirliti. Hann útskýrði í þættinum að eftirlitsmenn hefðu ávallt hringt á lögregluna þætti ástæða til þess að kanna málin betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×