Enski boltinn

Sky Sports: Rafael Benitez hættir með Liverpool innan 48 tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benitez.
Rafael Benitez. Mynd/AFP

Sky Sports segir frá því í morgun að Rafael Benitez muni hætta sem stjóri Liverpool á næstu 48 tímum og að hann og forráðamenn Liverpool fundi nú um starfslokasamning Spánverjans.

Fréttir af málinu láku út í gærkvöldi og í framhaldinu hafa enskir fjölmiðlar leitað eftir viðbrögðum frá Rafael Benitez eða umboðsmanni hans en ekki orðið neitt ágengt.

Samkvæmt samningi Rafael Benitez og Liverpool þá átti hann inni 16 milljónir punda yrði hann rekinn frá liðinu í sumar og það þykir ljóst að forráðamenn Liverpool eru að reyna að lækka þá tölu á fundum sínum með Benitez.

Rafael Benitez er búinn að vera stjóri Liverpool í sex tímabil eða frá 16.júní 2004. Hann hefur stjórnað liðinu í 328 leikjum, 183 þeirra hafa unnist en 72 tapast. Liverpool hefur unnið tvo stóra titla undir hans stjórn, vann Meistaradeildina 2005 og enska bikarinn 2006.

Rafael Benitez sagði í síðasta mánuði að hann ætlaði sér að klára samninginn sinn sem er til ársins 2014 en mikil óánægja innan herbúða félagsins hefur kallað á breytingar strax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×