Enski boltinn

Aron Einar: Ekki leiðinlegt að taka bæði Emma og Hemma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson er að standa sig vel hjá Coventry.
Aron Einar Gunnarsson er að standa sig vel hjá Coventry. Mynd/AFP

Aron Einar Gunnarsson og félagar í Coventry taka í kvöld á móti öðru Íslendingaliði í ensku bikarkeppninni þegar Hermann Hreiðarsson og félagar í Portsmouth koma í heimsókn. Þetta er endurtekinn leikur þar sem fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Leikurinn í kvöld verður í beinni á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 19.35.

„Það væri ekki leiðinlegt að taka bæði Emma og Hemma en þetta er annar leikur og önnur keppni," sagði Aron Einar í viðtali við Fótbolta.net en Aron Einar og félagar unnu 3-1 sigur á Barnsley, liði Emils Hallfreðssonar, í ensku B-deildinni um helgina.

„Við erum að spila á móti úrvalsdeildarliði og við áttum okkur á því að við erum að spila á móti leikmönnum sem eru að fá mun betur borgað og eru með mun betri aðstöðu. Þetta verður erfiður leikur en við sýndum í fyrri leiknum að við getum staðið í þessum liðum," segir Aron Einar ennfremur í viðtalinu en hann talar þar líka meðal annars um baráttuna við Hermann Hreiðarsson.

„Við erum góðir félagar og við vorum smá að ýta og klípa. Dómarinn sagði okkur að stoppa en við sögðumst vera Íslendingar og að þetta væri ekkert alvarlegt. Þetta var bara gaman. Ég held að það verði gaman fyrir Íslendinga að sjá okkur kljást þarna," sagði Aron Einar en allt viðtalið má finna hér.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×