Lífið

Tekur myndir í miðbænum og hengir upp í verslunum

Halla Einarsdóttir stendur fyrir verkefninu Augnablik sem er á vegum Listhópa Hins hússins. Myndir hennar birtast bæði á vefsíðu verkefnisins og í gluggum tuttugu verslana á Laugavegi.
Halla Einarsdóttir stendur fyrir verkefninu Augnablik sem er á vegum Listhópa Hins hússins. Myndir hennar birtast bæði á vefsíðu verkefnisins og í gluggum tuttugu verslana á Laugavegi.

Á meðal Listhópa Hins hússins er verkefnið Augnablik, en að því stendur áhugaljósmyndarinn Halla Einarsdóttir.

Í sumar mun Halla taka ljósmyndir af fólki í miðbæ Reykjavíkur og fanga ýmis sumarleg augnablik. Hún mun svo hengja myndirnar upp í gluggum verslana við Laugaveg og skapa með því skemmtilega stemningu á götum borgarinnar. „Ég er búin að taka myndir markvisst í um þrjú ár og með hverju árinu verður þetta minna og minna áhugamál og meira af alvöru og nú stefni ég á áframhaldandi ljósmyndanám eftir stúdentspróf," segir Halla sem hefur stundað ljósmyndanám við Myndlistaskóla Reykjavíkur samhliða stúdentsnámi við Kvennaskólann.

Innt eftir því hvernig hugmyndin að verkefninu hafi komið til segist hún hafa verið spennt fyrir starfi Listhópa Hins hússins og ákveðið að sækja um. „Mér fannst þetta spennandi og þegar ég var að reyna að finna sniðugt verkefni kom ekkert annað til greina en að taka ljósmyndir," segir Halla, sem hefur nú myndað á götum borgarinnar í heila viku.

„Ég fæ skriflegt leyfi frá fólki um að ég megi taka myndir af því og birta á Netinu og í gluggum verslana. Fólk tekur furðuvel í það að láta mynda sig og hingað til hefur aðeins ein kona sagt nei, þannig að þetta hefur farið fram úr mínum björtustu vonum."

Myndirnar eru birtar samdægurs á heimasíðu verkefnisins, augnabliksumarsins.blogspot.com, auk þess sem þær verða til sýnis aðra hverja viku í allt sumar í gluggum ákveðinna verslana við Laugaveg. - sm








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.