Handbolti

Þorgerður Anna: Allt of stórt tap

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þorgerður í baráttunni í kvöld.
Þorgerður í baráttunni í kvöld. Mynd/Ole Nielsen
Þorgerður Anna Atladóttir átti góða innkomu í síðari hálfleik gegn Króatíu í kvöld og skoraði fjögur góð mörk. Ísland tapaði þó leiknum, 35-25, í fyrstu umferð riðlakeppninnar á EM í Danmörku og Noregi.

Þorgerður skoraði þrjú mörk í leiknum en íslensku skyttunar höfðu fram að því fundið sig illa í leiknum.

„Það gekk ágætlega en það má svo sem alltaf gera betur. Ég fékk nokkrar mínútur í dag og um að gera að vera tilbúin þegar kallið kemur," sagði Þorgerður sem er yngsti leikmaðurinn í leikmannahópi Íslands. Hún er átján ára gömul.

„Við hefðum þurft að fara meira út í skytturnar hjá Króatíu í kvöld því þær voru að skora allt of mikið," sagði hún. „Mér finnst tíu marka munur allt of mikill því munurinn á milli þessara liða er ekki svo mikill."

„En það tökum það góða með okkur úr þessum leik og reynum að laga það sem ekki gekk. Það er það eina sem við getum gert."

Þorgerður segir að það eigi ekki að há liðinu að hafa aldrei spilað á stórmóti fyrr.

„Við erum með ungt lið en engu að síður með marga leikmenn sem hafa spilað marga stóra leiki í gegnum tíðina. Það hefur verið góð stemning í liðinu og mér fannst spennustigið hjá leikmönnum ekki of hátt í kvöld. Þetta gekk bara ekki upp hjá okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×