Bænalistarnir breyta engu í sjálfu sér. Réttlætinu verður ekki fullnægt við það að við setjum nafn okkar undir yfirlýsingu þess efnis að fjárglæframenn sem köstuðu mykju á málstað ekkna og munaðarleysingja eigi að iðrast gjörða sinna og hljóta makleg málagjöld.
Bænir sem við beinum hvert til annars og til almættisins gera aðeins sitt gagn ef þær leiða til aðgerða. Bænir, hvers eðlis sem þær eru, eiga að beina okkur til þeirra sem á einhvern hátt skortir það sem þarf til að lifa með mannlegri reisn. Bænalíf sem skilar sér ekki út í lífið er ónýtt bænalíf.
Nú stendur yfir Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun. Athygli okkar hefur beinst að fátækt á Íslandi. Hún birtist í ólíkum myndum, en alltaf rænir fátæktin manneskjuna reisn og tækifærum til að blómstra. Fátækt hefur lengi verið staðreynd á Íslandi, en margt bendir til að Hrunið hafi aukið hana. Í dag eiga rúmlega 11.000 börn foreldri án atvinnu og 30.000 Íslendingar lifa í fátækt.
Það breytist ekki neitt þótt við göngum í Facebook hópinn Við mótmælum fátækt á Íslandi. Látum því ekki staðar numið með listana. Nú er tími til að byggja samfélag þar sem allir geta lifað með reisn. Samfélag þar sem við sættum okkur ekki við fátækt. Tökum okkur stöðu með þeim sem eru útilokuð frá nægtaborðinu, búa við kröpp kjör. Vinnum í þágu þeirra og samfélagsins.