Innlent

Barist um bensíndropann

Orkan Lítrinn er fimm krónum ódýrari á Suðurlandi en annars staðar.
Orkan Lítrinn er fimm krónum ódýrari á Suðurlandi en annars staðar.

Mikið verðstríð geisar milli olíufélaganna. Það sýnir að svigrúm er fyrir hagræðingu og samkeppni á eldsneytismarkaðnum, að sögn Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda. „Það er greinilega sveigjanleiki til staðar, sem gerir það að verkum að hægt er að lækka bensínverð. Þrátt fyrir það er verðið enn mjög hátt,“ segir hann.

Sautján króna munur var á hæsta og lægsta verði á 95 oktana bensíni á Suðurlandi í gær. Munurinn var minni í öðrum landshlutum.

„Menn byrja að lækka þegar styttist í ferðamannatímann. Einn byrjar og svo fylgja hinir á eftir,“ segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1. Hann bendir á að lægsta verðið hafi í nokkur ár verið í Hveragerði. Það hafi teygt sig yfir til Selfoss. Þar er stutt á milli bensínstöðva og samkeppnin eftir því hörð. Þaðan hafi samkeppnin færst víðar, svo sem á Vesturland. Enginn verðmunur er nú á milli stærstu mönnuðu stöðvanna og ómannaðra. Í uppsveitum Árnessýslu þar sem samkeppnin er minni, er fullt listaverð í gildi.

„Ef ekki væri fyrir blússandi verðstríð væri verðið nær tvö hundruð krónum á lítrann,“ segir Hermann. Hann reiknar með stöðugu verði í sumar.

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, tekur í sama streng og Hermann; lægsta bensínverðið einskorðist við Suðurland. Þar sé stutt á milli stöðva og samkeppnisaðilar komist síður upp með verðhækkun. Hann segir svipað hafa gerst í Borgarnesi. Lítrinn er nú um fimm krónum ódýrari á Suðurlandi en annars staðar á landinu, þar sem hann kostar um 190 krónur. - sv, jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×