Viðskipti innlent

Færðu 90 milljarða frá Englandsbanka

Skilanefnd og slitastjórn Landsbankans varð að semja við nokkra af stærstu bönkum Evrópu svo þeir tækju ekki innstæður hennar upp á jafnvirði níutíu milljarða króna upp í kröfur. Bankarnir eru margir hverjir kröfuhafar þrotabús Landsbankans.

Innstæðurnar eru afborganir af útlánum Landsbankans í Bretlandi sem skilanefndin tók út hjá Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, í júlí. Skilanefndin lagði féð upphaflega inn í Englandsbanka í kjölfar fyrirmæla breska fjármálaeftirlitsins 3. október 2008 um að bankanum væri óheimilt að flytja féð úr landi. Þetta var fimm dögum áður en bresk stjórnvöld beittu hryðjuverkalögum og kyrrsettu eignir bankans í Bretlandi. Tilmælin hindruðu ekki flutning á fénu innan Bretlands. Skilanefndin taldi hins vegar hyggilegast í skugga hremminga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að leggja féð inn í Englandsbanka þrátt fyrir afar lága vexti þar líkt og jafnan er hjá seðlabönkum. Stýrivextir í Bretlandi hafa staðið í 0,5 prósentustigum í eitt og hálft ár.

Hryðjuverkalögum gagnvart Landsbankanum var aflétt í júní í fyrra og fékk skilanefnd bankans heimild hjá úrskurðarnefnd fjármálafyrirtækja ytra til að flytja innstæðuna úr landi.

Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Landsbankans var innstæðan í Englandsbanka jafnvirði tæpra hundrað milljarða króna í evrum og breskum pundum. Um níutíu milljarðar króna voru fluttir úr landi í júlí. Upphæðin dreifðist á nokkra banka í Evrópu utan Bretlands þar sem vextir eru hærri. Afgangurinn, jafnvirði tíu milljarða króna, liggur enn í hirslum Englandsbanka.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×