Lífið

Vill að Jón Gnarr leiki sjálfan sig í Skaupinu

Jóhannes býst ekki við því að leika Borgarstjórann Jón Gnarr í áramótaskaupinu.
Jóhannes býst ekki við því að leika Borgarstjórann Jón Gnarr í áramótaskaupinu. .fréttablaðið/vilhelm

„Kannski er ég svona valdsmannslegur. Ég leik oft menn með sterka og ákveðna nærveru," segir Jóhannes Haukur Jóhannesson, sem sló í gegn sem Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í áramótaskaupinu.

Hann leikur forseta í söngleiknum Draugurinn á Bessastöðum eftir Gerði Kristnýju sem verður frumsýndur í Þjóðleikhúsinu í janúar, þó ekki Ólaf Ragnar Grímsson heldur skáldaðan forseta.

Jóhannes á möguleika á að fullkomna valdsmannsþrennuna með því að leika nýjan borgarstjóra, Jón Gnarr, en líst ekkert á það.

„Ég sé mig ekki gera það, hann er það sterk fígúra sjálfur. Ég held að ég sé það ólíkur honum að það gangi ekki upp. En ég hvet Jón eindregið til að íhuga það að taka að sér hlutverk í skaupinu sem hann sjálfur. Ég sting hér með upp á því," segir hann í léttum dúr.

Jóhannes er þessa dagana á landsbyggðartúr með einleikinn Hellisbúann eftir að sýningum lauk í Reykjavík. Um helgina verður hann í Búðardal og á Ísafirði og helgina á eftir stígur hann á svið á Eskifirði og Egilsstöðum. Fyrsta sýningin var á Akranesi fyrir skömmu. „Það gekk með eindæmum vel og öll aðstaða þar var mjög góð. Ég vona að húsnæðið á hinum stöðunum standi undir þeim væntingum sem Bíóhöllin á Akranesi er búin að skapa."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.