Handbolti

Stefán: Frábært að vinna síðasta korterið 15-5

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Arnarson, þjálfari Vals, les yfir sínum stúlkum í kvöld.
Stefán Arnarson, þjálfari Vals, les yfir sínum stúlkum í kvöld. Mynd/Vilhelm
Valskonur eru komnar í 1-0 í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Haukum í N1 deild kvenna eftir 28-23 sigur í Vodafone-höllinni í kvöld. Stefán Arnarson, þjálfari Vals, þurfti ekki að taka leikhlé til þess að vekja sínar stelpur þegar staðan var orðin 13-18 fyrir Hauka en það var eins og allt í einu hafi hans stelpur vaknað af værum blundi.

„Mér leyst engan veginn á blikuna fyrstu 40 mínúturnar í leiknum. Við vorum ekki að spila nægilega góða því við vorum aldrei að tækla þær og þær voru að skora of auðveld mörk. Ég var alltaf að hugsa um það að breyta um vörn en sem betur gerði ég það ekki," sagði Stefán og bætti við:

„Sóknarleikurinn gekk illa af því að við vorum ekki að horfa á markið. Það hefði mátt vera meira tempó í sóknarleiknum og meiri hreyfing á milli manna en um leið og þær fóru að horfa á markið þá var þetta ekkert vandamál," sagði Stefán.

„Við teljum okkur vera í góðu formi og við vissum að þær færu að þreytast. Það er frábært að vinna síðasta korterið 15-5. Við leggjum upp með að keyra á miklu tempói og vitum að liðið okkar er í góðu formi. Við erum ágætis breidd. Við höfum það yfir Haukana að þeir gátu ekki skipt mikið og því var ekkert óeðlilegt að við værum að sigla fram úr á þessum tímapunkti," sagði Stefán.

„Haukarnir eru með fínt lið og spiluðu mun betur en við fyrstu 40 mínútur leiksins. Sem betur skilaði karakterinn okkar því að við kláruðum þetta á síðustu 15 mínútunum. Það er gríðarlega mikilvægt í öllum úrslitaeinvígum að vinna fyrsta leik. Þetta var sigur fyrir liðið því við töldum að við værum ekki að spila nægjanlega vel í fyrri hálfleik. Við teljum okkur vera með sterka liðsheild og hún vann þetta fyrir okkur í seinni hálfleik," sagði Stefán að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×