Handbolti

Úr pólsku deildinni í EM-hóp Dana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana.
Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana. Nordic Photos / AFP
Leikstjórnandinn Henrik Knudsen verður með Dönum á EM í Austurríki í næstu viku en það kom mörgum á óvart þegar að landsliðsþjálfarinn Ulrik Wilbek valdi hann í landsliðið í síðasta mánuði.

Wilbek valdi sinn sextán manna landsliðshóp fyrir jól og þá lá strax ljóst fyrir að Jesper Jensen, leikmaður Skjern, myndi ekki spila með í Austurríki vegna meiðsla. Thomas Mogensen verður væntanlega í byrjunarliði Dana en Knudsen fær það hlutverk að leysa hann af.

Knudsen er 27 ára gamall og lék með Bjerringbro og Kolding áður en hann hélt til Emsdetten í þýsku B-deildinni. Nú leikur hann með pólsku meisturunum í Vive Kielce.

„Það kom mér á óvart að ég var valinn í EM-hópinn skyndilega. Hlutirnir gerðust mjög hratt hjá mér á síðasta ári - frá því að spila í B-deildinni í Þýskalandi, svo í Póllandi og í Meistaradeildinni og nú með Danmörku á EM," sagði Knudsen við danska fjölmiðla. „Mér finnst að það hafi gengið mjög vel hjá mér á æfingum með landsliðinu."

Knudsen er nýliði með danska landsliðinu og neitar Knudsen því ekki að það er sérstök staða fyrir 27 ára gamlan mann. „Það er svolítið sérstakt að leikmaður eins og Niklas Landin markvörður, sem er mun yngri en ég, hefur spilað miklu fleiri landsleiki en ég. En þetta er þó ekki vandamál í mínum augum."

Sjálfur sagði Wilbek að hann búist ekki við neinu af honum. „Það væri ósanngjarnt af mér að krefjast einhvers af honum," sagði Wilbek. „Hann mun þó fá tækifæri til að sýna hvað hann getur. Það verður spennandi að fylgjast með honum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×