Innlent

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kynnt á morgun

Frá blaðamannafundi rannsóknarnefndarinnar í vetur.
Frá blaðamannafundi rannsóknarnefndarinnar í vetur. Mynd/Stefán Karlsson
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið verður kynnt á á blaðamannafundi í fyrramálið.

Skýrslunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en birting hennar hefur tafist nokkuð. Í lögum um rannsóknarnefnd Alþingis sett voru haustið 2008 var ákvæði um að nefndin ætti að skila skýrslunni í nóvember ári síðar. Skýrslan var hins vegar ekki tilbúin þá og birtingunni því frestað fram í janúar á þessu ári. Skýrslan var heldur ekki tilbúin þá og birtingu hennar því frestað aftur.

Rannsóknarnefnd Alþingis heldur blaðamannafund í Iðnó á morgun klukkan hálf ellefu. Þar verða niðurstöður nefndarinnar um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna kynntar.

Forseti Alþingis fær afhent fyrsta eintak skýrslunnar hálftíma fyrir fundinn. Að því loknu eða klukkan tuttugu mínútur yfir tíu verður opnað fyrir aðgang almennings að skýrslunni á vef Alþingis.

Bein útsending verður frá blaðmannafundi rannsóknarnefndarinnar á vefnum Vísir.is og Bylgjunni. Ítarleg umfjöllun um skýrsluna verður bæði á Vísi og á Bylgjunni allan daginn. Klukkan hálf sjö hefst svo lengdur fréttatími á Stöð 2 og Bylgjunni. Fréttatíminn verður klukkutími og korter. Þar fara fréttamenn Stöðvar 2 ítarlega yfir skýrsluna og þýðingu hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×