Enski boltinn

Everton vann sannfærandi sigur á City - fyrsta tap Mancini

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Everton-menn fagna öðru marka sinna í dag.
Everton-menn fagna öðru marka sinna í dag. Mynd/GettyImages

Manchester City tapaði sínum fyrsta leik undir stjórn Ítalans Roberto Mancini þegar liðið lá 0-2 fyrir Everton á Goodison Park íensku úrvalsdeildinni í kvöld. City-liðið átti aldrei möguleika á móti frískum og baráttuglöðum heimamönnum.

Steven Pienaar skoraði fyrra markið á 36. mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu og Luis Saha skoraði hitt úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfsleiks eftir heimskulegt peysutog Micah Richards.

Everton hafði öll völd á vellinum í þessum leik og gestirnir úr Manchester gátu hreinlega þakkað fyrir að tapa ekki enn stærra. Tapið þýðir að markalaust jafntefli Tottenham gegn Hull dugði Spurs-liðinu til að taka fjórða og síðasta Meistaradeildarsætið aftur af City.

Roberto Mancini opnaði örugglega fyrir flóðbylgju af sögusögnum í ensku blöðunum næstu daga með því að taka Brasilíumanninn Robinho útaf á 60. mínútu. Mancini hafði áður skipt honum inn á völlinn vegna meiðsla Roque Santa Cruz á 9.mínútu leiksins. Robinho var skelfilegur og það var rétt hjá Mancini að taka hann af velli.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×