Handbolti

Fyrsti leikurinn við Spánverja síðan í undanúrslitunum í Peking

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna hér sigri á Spánverjum á Ólympíuleikunum.
Íslensku strákarnir fagna hér sigri á Spánverjum á Ólympíuleikunum. Mynd/AFP

Íslenska karlalandsliðið mætir Spánverjum klukkan 13.00 í dag að íslenskum tíma í fyrri leik sínum á hraðmótinu í Frakklandi. Mótið heitir Tournoi De Paris og er oft kennt við Bercy-höllina í París þar sem það fer fram. Þetta er næstsíðasti æfingaleikur liðsins fyrir EM í Austurríki sem hefst á þriðjudaginn en lokaleikurinn fer fram á morgun þegar spilað er um sæti.

Leikurinn við Spánverja í dag verður fyrsti leikur þjóðanna síðan að Strákarnir unnu stórglæsilegan 36-30 sigur í undanúrslitaleiknum á Ólympíuleikunum í Peking og tryggðu sér þar með verðlaun á mótinu. Spánverjar unnu seinna bronsleikinn.

Þjóðirnar mættust alls sjö sinnum á árinu 2008 og var þetta aðeins annar af tveimur sigrum íslenska liðsins. Guðjón Valur Sigurðsson og Logi Geirsson skoruðu báðir sjö mörk í leiknum og Snorri Steinn Guðjónsson var með sex mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×