Enski boltinn

Mörk Emils og Heiðars dugðu ekki liðum þeirra í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Hallfreðsson í landsleik.
Emil Hallfreðsson í landsleik. Mynd/AFP

Emil Hallfreðsson og Heiðar Helguson voru báðir á skotskónum í ensku b-deildinni í dag en það dugði þó ekki liðum þeirra því þau urðu bæði að sætta sig við 1-2 tap. Öll fimm Íslendingalið deildarinnar töpuðu sínum leikjum.

Barnsley tapaði 1-2 á heimavelli fyrir Sheffield Wednesday. Barnsley lenti undir eftir aðeins þrjár mínútur en Emil Hallfreðsson jafnaði leikinn fjórum mínútum síðar. Sigurmark Sheffield kom síðan strax á 21. mínútu. Emil var tekinn útaf á 65. mínútu leiksins.

Watford tapaði 1-2 á útivelli á móti Doncaster. Heiðar Helguson lék allan leikinn og minnkaði muninn á 90. mínútu leiksins.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson lék sinn fyrsta leik með Reading þegar liðið tapaði 1-2 á móti Nottingham Forrest. Ívar Ingimarsson var líka í byrjunarliðinu, Brynjar Björn Gunnarsson sat á bekknum allan tímann og Gylfi Þór Sigurðsson gat ekki leikið vegna meiðsla.

Kári Árnason og félagar í Plymouth töpuðu 0-1 á heimavelli á móti Crystal Palace. Kári lék allan leikinn í vörninni.

Aron Einar Gunnarsson kom á sem varamaður á 82. mínútu þegar Coventry tapaði 2-3 á útivelli á móti Ipswich. Coventry jafnaði leikinn eftir að Aron kom inn á völlinn en Ipswich náði að tryggja sér sigur í uppbótartíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×