Viðskipti innlent

Skuldir þjóðarbúsins minnka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skuldir íslenska þjóðarbúsins umfram eignir nam 5.711 krónum í lok annars ársfjórðungs og lækkuðu nettóskuldir um 189 milljarða króna frá fyrsta ársfjórðungi. Við lok annars ársfjórðungs námu erlendar skuldir þjóðarbúsins 13.917 milljörðum króna en erlendar eignir voru 8.206 milljarðar króna, samkvæmt tölum Seðlabankans sem birtar voru í gær.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni að erlendar skuldir gömlu bankanna vegi þungt í þessum tölum en þær muni hverfa smám saman á næstu misserum samhliða eignasölu og afskriftum á skuldum. Erlendar eignir þeirra voru um mitt árið 5.719 milljarðar króna en erlendar skuldir 10.869 milljarðar króna. Að gömlu bönkunum undanskildum var hrein erlend staða þjóðarbúsins neikvæð um 561 ma.kr. Þetta jafngildir ríflega 36% af áætlaðri landsframleiðslu ársins en ef gömlu bankarnir væru meðtaldir væri þetta hlutfall tíu sinnum hærra. Greining Íslandsbanka segir að það verði þó að hafa í huga að þótt að kúfurinn af nettóskuldum gömlu bankanna þurrkist út standi eftir meðal erlendra skulda sá hluti eigin fjár þeirra sem verði í eigu erlendra kröfuhafa eftir að slitameðferð þeirra lýkur.

Þá bendir Greining Íslandsbanka á að þessum tölum beri enn að taka með fyrirvara þar sem takmarkaðar upplýsingar séu um erlendar eignir og skuldir banka í slitameðferð og þær séu þá framreiknaðar eins og þær stóðu við þrot þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×