Viðskipti innlent

Hátt í þrjátíu manns sagt upp hjá Avant

Bráðabirgðastjórn fjármögnunarfyrirtækisins Avant ákvað í gær að segja upp öllu starfsfólki fyrirtækisins. Helstu lánadrottnar Avatn hafa tekið vel í tillögu að nauðasamningum sem leggja á fyrir Héraðsdóm á næstunni.

Fjármálaeftirlitið skipaði í síðasta mánuði bráðabirgðastjórn yfir fyrirtækinu sem hefur undanfarið átt í samningaviðræðum við helstu lánadrottna félagsins.

Í gær var ákveðið á fundi stjórnar að segja upp öllum 29 starfsmönnum fyrirtækisins, en gangi nauðasamningar eftir býst Friðjón Örn Friðjónsson formaður stjórnar við því að minnsta kosti hluti starfsfólksins verðið ráðið aftur.

Hann segir bráðabirgðastjórnina hafa sett fram ákveðna tillögur að nauðasamningum sem helstu lánadrottnar hafi tekið vel í, og hefur verið samþykkt að leggja fram formlega beiðni til Héraðsdóms að tillögu að nauðasamningum.

Friðjón sagðist í samtali við fréttastofu vera að semja þá beiðni en hvort þetta nái fram að ganga sé of snemmt að segja til um.

Hann segir stjórnina vinna á þeim grundvelli sem lagður var með dómi Héraðsdóms varðandi gengistryggðu lánin, en ljóst sé að niðurstaða Hæstaréttar, sem von er á í byrjun desember, geti breytt stöðunni talsvert.

Friðjón segist búast við að geta lagt beiðnina fyrir Héraðsdómi innan tveggja vikna. Hana verði að semja í samráði við marga aðila, og því ferli verði reynt að flýta eins og kostur sé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×