Viðskipti innlent

Fjárfestingar á Cayman eyjum jókst um sextán þúsund prósent

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Bein fjárfesting Íslendinga í skattaskjólinu á Cayman eyjum jókst um tæplega sextán þúsund prósent milli áranna 2008 og 2009. Hækkunin skýrist fyrst og fremst af því að Seðlabankinn hefur ekki haft aðgang að gögnum frá skattaparadísinni fyrr en nú.

Í nýjum tölum frá Seðlabankanum kemur fram að bein fjárfesting Íslendinga erlendis á síðasta ári nam alls 555 milljörðum króna. Þetta er töluverður viðsnúningur frá árinu áður en þá var fjárfestingin neikvæð um rúma 374 milljarða króna. Skýrist þetta einkum af því að mörg skuldsett fyrirtæki sem áður höfðu neikvæð áhrif á heildartöluna eru nú farin í þrot.

Íslendingar fjárfestu mest í Bretlandi á síðasta ári, eða fyrir 262 milljarða króna. Næst á eftir komu fjárfestingar í Belgíu, Lúxemborg og Hollandi. Mest var fjárfest í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, einkahlutafélögum og framleiðslu. Þrátt fyrir að Íslendingar hafi fjárfest fyrir um 120 milljarða króna í einkahlutafélögum erlendis er fjármunaeign þeirra neikvæð um 165 milljarða króna.

Þá jókst bein fjárfesting Íslendinga í skattaskjólinu á Cayman eyjum mikið á milli áranna 2008 og 9. Fór frá því að vera 26 milljónir króna í rúmlega fjögurþúsund og eitthundrað milljónir, eða um eitthundrað og sextíu sinnum meiri. Bein fjármunaeign Íslendinga í skattaparadísinni jókst einnig gríðarlega á milli ára.

Í fyrra taldi hún um 58 milljarða króna en var áður um 400 milljónir. Ástæðan fyrir þessari hækkun er fyrst og fremst sú að Seðlabankinn fær nú upplýsingar um félög á Cayman eyjum sem bankinn hefur ekki haft aðgang að áður. Samanburður á milli ára er því vart marktækur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×