Viðskipti erlent

Mesta eignaaukning hjá vogunarsjóðum í þrjú ár

Á þriðja ársfjórðungi ársins hafa vogunarsjóðir séð fram á mestu aukningu á eignum undir þeirra stjórn á síðustu þremur árum. Að meðaltali jukust eignir vogunarsjóða heimsins um rúm 5% á ársfjórðungnum. Í heildina nemur aukningin 120 milljörðum dollara eða ríflega 13.000 milljörðum kr.

Financial Times fjallar um málið og vitnar í nýjar tölur frá Hedge Fund Research. Þar kemur fram að vogunarsjóðir stjórna nú meiri eignum en þeir gerðu fyrir upphaf fjármálakreppunnar árið 2007.

Þrátt fyrir góða aukningu á þriðja ársfjórðungi hefur árið í ár reynst mörgum vognarsjóðsstjórum erfitt og er eignaaukningin í heild frá áramótum aðeins 4,8% að meðaltali.

Samkvæmt frétt Financial Times hefur mestur árangur náðst hjá þeim vogunarsjóðum sem starfa á alþjóðavísu, svokölluðum „global macro" sjóðum. Þessir sjóðir spila m.a. á hreyfingar á alþjóðamörkuðum eins og til dæmis gengisbreytingar á mismunandi gjaldmiðlum og skuldabréfum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×