Lífið

Feta í fótspor hljómsveitar Buddy Holly

Hannes, Baldur og Gummi fara með hlutverk hljómsveitarinnar The Crickets í söngleiknum um líf Buddy Holly.
Hannes, Baldur og Gummi fara með hlutverk hljómsveitarinnar The Crickets í söngleiknum um líf Buddy Holly. Fréttablaðið/Arnþór
„Við fórum ekki beint í prufu fyrir þetta. Þeir höfðu samband og spurðu hvort við vildum prufa að koma saman. Við slógum til og spiluðum nokkur lög fyrir þá og þeir réðu okkur í framhaldi af því," segir Hannes Friðbjarnarson úr hljómsveitinni Buff.

Eins og áður hefur komið fram í Fréttablaðinu verður söngleikurinn um Buddy Holly frumsýndur í Austurbæ í október. Ingó í Veðurguðunum fer með hlutverk söngvarans en sá stóð ekki einn á sviði. Holly hafði bandið The Crickets sér til halds og trausts á sviðinu og nú hefur verið ráðið í hlutverk þeirra. Ásamt Hannesi verða Guðmundur Stefán Þorláksson gítarleikari úr hljómsveitinni Hraun og Baldur Ragnarsson bassaleikari úr Ljótu Hálfvitunum sem fara með hlutverk bandsins. Þeir félagar eiga sér ekki langa sögu á sviði nema þá helst hann Baldur. Hann hefur um árabil verið mjög virkur í áhugaleikhópum og nú síðast í söngleiknum ROKK. Hannes hefur meðal annars gert garðinn frægan í útlöndum í rússneskum vodkaauglýsingum en lítið hefur spurst um leikafrek Guðmundar.

„Ég hef aldrei spilað neitt af lögum Buddy Holly og The Crickets en þau eru grunnurinn að rokkinu þannig að þetta liggur vel fyrir okkur," segir Hannes. „Þeir sem lifa og hrærast í músík þekkja til Buddy Holly og The Crickets og einhverra laga þeirra. Þetta leggst vel í mig og hópurinn sem búið er að nefna virðist ætla að verða frábær."

Bandið kemur saman í ágúst til að renna yfir þennan fimmtán laga lista sem búið er að setja saman fyrir sýninguna. Það er síðan í september sem allur hópurinn kemur saman og æfingar hefjast á sviði í Austurbæ.

„Það er bara Buddy Holly í spilaranum út sumarið til að fá þetta beint í æð," segir Hannes að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.