Enski boltinn

Arsene Wenger: Ákvörðun FIFA á heima á miðöldum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsène Wenger, franski stjórinn hjá Arsenal, var ekki hrifinn af þeirri ákvörðun hjá framkvæmdastjórn FIFA í gær að HM í fótbolta árið 2018 fari fram í Rússlandi en ekki í mekka fótboltans í Englandi. Wenger studdi opinberlega umsókn Englendinga og myndband með honum var sýnt sem hluti af kynningarmyndbandi Englendinga.

„Ég er mjög leiður yfir þessu því ég studdi þessa umsókn Englands eins mikið og ég gat. Ég er vonsvikinn fyrir hönd fólksins í Englandi sem hefur svo mikla ástríðu fyrir fótboltanum," sagði Arsene Wenger.

„Ég held að FIFA hafi ekki gert sér grein fyrir því hversu miklu máli þessi umsókn skipti ensku þjóðina. Ég sá hversu mikið fólk lagði á sig til þessa að gera þessa umsókn eins góða og hún var," sagði Wenger.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal.Mynd/AP
„Þetta leit út fyrir mér eins og þetta væri ákvörðun sem var tekin á miðöldum. Það ætti að vera miklu meira mark tekið á tæknilega þættinum en mannlega þættinum. Það ætti bara verið að hægt að setja allar upplýsingar inn í tölvu og hún myndi síðan reikna út hvað væri besta umsóknin. Það lítur ekki vel út í nútímaþjóðfélagi að þetta byggist allt upp á því að fólk gangi á milli manna og reyni að selja þeim sína umsókn," sagði Wenger.

Hann eins og fleiri skilur ekkert í því hvernig enska umsóknin gat aðeins fengið tvö atkvæði af 22 mögulegum. Það var eitt að missa af HM en það er annað að fá algjöra falleinkunn hjá framkvæmdastjórn FIFA.

„Ég skil ekki hvernig það gat gerst. Ég studdi þessa umsókn og hafði trú á henni. HM hefur ekki farið fram á Englandi í langan tíma og þessi þjóð bjó til fótboltann. Rússland sendi hinn góða umsókn og ég vil óska þeim til hamingju. En við flest skiljum bara ekki hvernig enska umsóknin fékk svona skell," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×