Enski boltinn

Avram Grant ráðinn stjóri West Ham á næstu 24 tímum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Avram Grant.
Avram Grant. Mynd/AFP
West Ham hefur gefið það út að félagið muni ráða nýjan stjóra á næstu 24 tímum en það nánast frágengið samkvæmt enskum miðlum að Avram Grant muni taka við liðinu af Gianfranco Zola sem var rekinn eftir tímabilið.

West Ham segist hafa skoðað marga í leit sinni að nýjum stjóra en liðið rétt slapp við fall úr ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og fékk aðeins 35 stig út úr 38 leikjum.

Hinn 55 ára gamli Avram Grant snýr aftur úr sumarfríi í dag og þá er reiknað með því að hann skrifi undir samning sem næsti stjórinn á Upton Park.

Avram Grant stýrði Portsmouth á þessu tímabili og kom liðinu alla leið í bikarúrslitaleikinn. Liðið féll hinsvegar úr deildinni en hann náði góðum árangri með Portsmouth-liðið í erfiðum aðstæðum og hlaut mikið lof fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×