Innlent

Flytja þarf mörg þúsund fjár af öskusvæðum

Öskufall Öskufallið hefur valdið bændum undir Austur- Eyjafjöllum ómældum skaða.
Öskufall Öskufallið hefur valdið bændum undir Austur- Eyjafjöllum ómældum skaða.

Fyrstu kindurnar verða fluttar af öskufallssvæðunum undir Austur-Eyjafjöllum á beitarsvæði innan varnarlínu í dag. Að sögn Hermanns Árnasonar, starfsmanns hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, verða á annað hundrað lambær fluttar á jörðina Þverá í Skaftárhreppi.

„Sauðfjárbændur ætla að reyna að þrauka eins lengi og þeir geta,“ segir Hermann. „Óvissan er hins vegar mjög mikil. Þó er ljóst að á svæðunum undir Eyjafjöllum sem verst hafa orðið úti af völdum öskufallsins er fátt annað í stöðunni en að flytja féð. Það er búið með haglendið þar í sumar. Það er því alveg ljóst að það mun koma til frekari fjárflutninga, þótt einhverjir treysti sér til að hafa féð í heimahögum. Spurningin er bara hversu mörg þúsund þarf að flytja. Hins vegar fjara möguleikar manna til að hafa féð heima við út með hverri öskugusunni sem ríður yfir svæðið, þannig að það er nær útilokað að spá um framhaldið. Þetta er svo fljótt að gerast. Fljótt á litið tel ég að fjöldi fullorðins fjár á öskfallssvæðunum sé 6 - 7000.“

Hermann segir æ fleiri bjóða fram land til beitar innan varnarlínu. Framboðið sé orðið meira en hann hafi átt von á. Hjálpsemi fólks sé alveg ótrúleg þegar á reyni.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×