Innlent

Rekinn úr Sjálfstæðisflokknum degi fyrir landsfund

Ólafur Áki Ragnarsson var rekinn úr Sjálfstæðisflokknum.
Ólafur Áki Ragnarsson var rekinn úr Sjálfstæðisflokknum.

„Mér var vísað úr flokknum í gær," segir Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Ölfuss, en hann var rekinn úr Sjálfstæðisflokknum í gær. Það var framkvæmdarstjóri flokksins, Jónmundur Guðmarsson, sem hringdi í hann og tilkynnti honum að miðstjórn flokksins hefði ákveðið að vísa honum úr flokknum.

Sjálfur var Ólafur að gera sig tilbúin til þess að mæta á landsfund flokksins sem hefst í dag, en Ólafur hefur verið skráður í Sjálfstæðisflokkinn og unnið fyrir hann í 20 ár.

„Ástæðan var sögð vera sú að ég tengdist öðru framboði," segir Ólafur en hann bauð fram undir formerkjum A-listans í Ölfusi síðast og fékk tvo menn kjörna. Ólafur segir langa og flókna sögu fyrir því að hann bauð fram undir merkjum A-listans en Sjálfstæðisflokkurinn bauð einnig fram og fékk tvo menn kjörna. Aftur á móti myndaði Ólafur meirihluta með Framsóknarflokknum.

„Ég hélt að það væri frekar stefna flokksins að laða fólk að heldur en að reka það," segir hann og bætir við að hann hafi trúað því að flokkurinn væri á réttri leið. Núna er hann ekki svo viss.

Aðspurður hvort hann viti til þess að aðrir hafi verið reknir úr flokknum fyrir landsfundinn segist hann ekki hafa heyrt af því. Hann bendir á að hann viti ekki til þess að flokksmenn hafi verið reknir úr flokknum í fjölda ára.

Spurður hvort hann ætli að mótmæla ákvörðun miðstjórnar flokksins með einhverjum hætti svarar Ólafur því að það sé ekki hans stíll að troða sér inn á samkundur.

„En mér er verulega brugðið yfir þessu," segir Ólafur sem ætlar að halda áfram að einbeita sér að hagsmunum íbúa í Ölfusi undir formerkjum A-listans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×