Innlent

Vill láta jarða sig við hliðina á kindunum

Síðasti sauðfjárbóndinn við norðanverðan Arnarfjörð er að bregða búi. Hann vill láta jarða sig við hliðina á uppáhaldskindunum sínum í sérstökum grafreit, sem hann er búinn að láta gera í virðingarskyni við kindurnar. Þetta kemur fram í viðtali Kristjáns Más Unnarssonar fréttastjóra við Þorbjörn Pétursson, bónda á Ósi í Mosdal, sem sýnt verður í kvöld í þættinum Ísland í dag á Stöð 2.

Þorbjörn undirbýr nú brottflutning frá Ósi. Hann er búinn að rífa og brenna fjárhúsin og hlöðuna og kaupa sér íbúð á Þingeyri. Þangað ákvað hann í vor að flytja en segist nú hættur við og er að spá í að flytjast enn lengra brott.

Þorbjörn kveður búskapinn og jörðina með táknrænum hætti. Við ósinn, sem bærinn dregur nafn sitt af, hefur hann látið ryðja upp miklum haug. Þetta er grafreitur, þarna liggja um 80 kindur, sem aldrei fóru í sláturhús, og voru hans uppáhaldsfé, kallað "svarta gengið".

Þarna liggja kindurnar sem mér þótti vænst um, segir Þorbjörn. "Ég vildi bara liggja hér líka." Viðtalið við Þorbjörn verður sýnt um kl. 18.55.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×