Viðskipti innlent

Eftirlitsnefnd vissi ekki um vanskil hjá Reykjanesbæ

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hyggst senda bréf til þeirra sveitarfélaga sem skulda meira en 150% af heildartekjum á næstu dögum. Reykjanesbær hefur ekki greitt lán upp á 1,8 milljarða sem féll í gjalddaga í byrjun ágúst. Eftirlitsnefndin vissi ekki um það.

Reykjanesbæ hefur ekki tekist að endurfjármagna erlent lán sem stendur í 1,8 milljörðum króna en lánið gjaldféll í byrjun ágúst. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Lánið var tekið árið 2000 hjá þýskum banka sem nú er í slitameðferð.

Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar segir að erfitt hafi reynst að semja við bankann um endurfjármögnun vegna þess að bankinn sé í slitameðferð.

Allt stefnir í fimm hundruð milljóna króna halla á rekstri bæjarsjóðs Reykjanesbæjar á þessu ári. Í fjárhagsáætlun bæjarins var gert ráð fyrir að tekjur myndu aukast um hátt í sjö hundruð milljónir á þessu ári vegna ýmissa verkefna, aðallega þó vegna framkvæmda við álver í Helguvík. Sú áætlun hefur brugðist en framkvæmdir við álverið og fleiri önnur verkefni hafa tafist.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst var eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaganna ekki kunnugt um að sveitarfélagið væri í vanskilum með erlenda lánið. Erfið fjárhagsstaða bæjarins kemur nefndinni þó ekki á óvart því málefni Reykjanesbæjar hafa verið til sérstakrar skoðunar hjá nefndinni sem hefur sent bænum formlega viðvörun vegna slæmrar fjárhagsstöðu.

Ólafur Nilsson, formaður nefndarinnar, segir að verið sé að vinna í því að senda bréf til þeirra sveitarfélaga sem skulda meira en 150% af heildartekjum, og Reykjanesbær sé í þeim hópi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×