Viðskipti erlent

Lánin öll kosta sextán milljarða króna

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar
seðlabankastjóri
seðlabankastjóri
Seðlabankinn áætlar að vaxtakostnaður við lánin sem tekin voru í tengslum við efnahags-áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nemi 104 milljónum evra, jafnvirði sextán milljarða króna, á ári verði þau öll nýtt. Lánin mynda gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Áætlaður vaxtakostnaður af þeim lánum sem þegar hefur verið dregið á nemur 41 milljón evra, jafnvirði átta milljarða króna. Það jafngildir 0,5 prósentum af vergri landsframleiðslu. Þetta kemur fram í svari Seðlabankans við fyrirspurn Fréttablaðsins á síðasta vaxtaákvörðunarfundi bankans.

Helmingur lána frá AGS og Norðurlöndunum hefur nú skilað sér og þriðjungur láns frá Póllandi. Allt lán Færeyinga hefur verið nýtt.

Í svari Seðlabankans kemur fram að gjaldeyrisvaraforðinn gegni mikilvægu hlutverki. Hann þurfi að vera nægur til að tryggja greiðslugetu ríkissjóðs, stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði auk þess sem öflugur forði geti lækkað áhættuálag á vexti sem innlendum fyrirtækjum bjóðast erlendis.

Þá bendir bankinn á að forðinn hafi nýst til kaupa á útistandandi skuldum ríkissjóðs á hagstæðum kjörum og í raun lækkað lánsfjárkostnað ríkissjóðs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×