Lífið

Stýrir skóla eftir þriggja ára starf

Skólastjórafjölskylda. Meðlimir fjölskyldunnar eru spennt fyrir breytingunum.
fréttablaðið/vilhelm
Skólastjórafjölskylda. Meðlimir fjölskyldunnar eru spennt fyrir breytingunum. fréttablaðið/vilhelm

Jóhann og unnusta hans flytja með fjölskyldu sína til Raufarhafnar nú í sumar. Þar mun hann taka við starfi skóla- og leikskólastjóra, þó nokkuð undir meðalaldri þeirra sem taka við stöðu sem þessari.

„Þetta leggst bara mjög vel í okkur! Ég skiptist á að vera ótrúlega spenntur og ótrúlega stressaður. En ég held þetta verði óskaplega gaman hjá okkur“ segir Jóhann Skagfjörð.

Jóhann flytur ásamt unnustu sinni, Bryndísi Evu Ásmundsdóttur, og börnunum þeirra þremur, sem eru níu, sex og eins árs, til Raufarhafnar um miðjan júlí. Jóhann, sem aðeins er 29 ára gamall, mun þar taka við stöðu skóla- og leikskólastjóra, þar sem báðar stöður heyra undir sama starfssvið. Bryndís mun vera honum til aðstoðar við skólann þar sem hún ætlar að kenna unglingastiginu.

„Okkur langaði að prófa að búa úti á landi og losna við höfuðborgarstressið,“ segir Jóhann.

Þegar þetta starf var auglýst opnaðist glugginn fyrir parið. „Börnunum líst líka mjög vel á þetta og sáu strax jákvæðu hliðina við að þurfa ekkert að óttast það að fara til skólastjóra,“ segir Jóhann.

Jóhann og Bryndís útskrifuðust saman úr Kennaraháskólanum vorið 2007. Hefur hann því einungis kennt í um þrjú ár. Um níu prósent skólastjóra á landinu eru yngri en fjörutíu ára og er algengast að skólastjórar séu á bilinu 50-59 ára. Því er augljóst að hann er vel undir meðalaldri þeirra sem taka að sér skólastjórastöður. - ls






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.