Innlent

Íslendingar greiða milljarða í þróunaraðstoð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir vill undanþágur frá greiðslum í þróunarsjóð EFTA.
Vigdís Hauksdóttir vill undanþágur frá greiðslum í þróunarsjóð EFTA.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, vill að Íslendingar fái undanþágur frá greiðslum í þróunarsjóð EFTA. Vigdís sagði í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag að samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár ætti að greiða einn og hálfan milljarð á næsta ári í þennan sjóð. „Svo alvarlegasti hlutirinn er sá að nú liggur fyrir Alþingi frumvarp sem felur í sér breytingu á EES samningnum þar sem þessar greiðslur eru lögfestar til næstu fimm ára," segir Vigdís.

Gert er ráð fyrir að á þessu tímabili eigi um átta milljarðar íslenskra króna að renna inn í þróunarsjóð EFTA sem hafi það hlutverk að hjálpa löndum innan evrópusambandsins sem eru í fjárhagslegum erfiðleikum. Um sé að ræða lönd eins og Grikkland, Portúgal, Ítalíu og austantjaldslöndin fyrrverandi. Hún spyr sig hvort ekki sé réttara að líta sér nær þegar að Íslendingar séu í þeirri stöðu sem nú er uppi að fólk bíði í biðröðum eftir því að fá mat hjá hjálparstofnunum.

Vigdís telur að umsóknarferlið um Evrópusambandið spili inn í. „Auðvitað spilar þetta allt saman inní þessa umsókn og augljóst að stjórnvöld vilja ekki styggja Evrópusambandið með þessu," segir Vigdís.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×