Innlent

Jón Gnarr: Klám er dýrslegt og ógeðfellt

Erla Hlynsdóttir skrifar
Jón Gnarr skammast sín fyrir að borgarafundurinn sem haldinn var í gær um fátækt hafi ekki komist á dagskrá borgarráðs
Jón Gnarr skammast sín fyrir að borgarafundurinn sem haldinn var í gær um fátækt hafi ekki komist á dagskrá borgarráðs

Jón Gnarr borgarstjóri harmar mjög umræðuna sem hefur skapast um orð hans um klámnotkun sem hann lét falla í viðtali við frönsku fréttastofuna AFP. „Ég var að grínast," segir Jón og bendir á að um leið og hann hafði sleppt orðinu hafi hann sérstaklega tekið fram að þetta hefði verið grín. Því næst sagðist hann aðallega nota netið til að fara á Facebook og „gúggla." Sú viðbót rataði hins vegar ekki í viðtalið.

Spurður hvað honum finnst um klám og klámnotkun segir hann: „Mér finnst þetta sorglegt. Þetta er kærleikslaus heimur og óaðlaðandi. Þetta er kynlíf án kærleika sem er bara dýrslegt og ógeðfellt."

Kjánalegt

Jón Gnarr segir að orð hans hafi verið tekin úr samhengi hjá AFP en hann hefur ekki ákveðið hvort hann ætlar að gera athugasemdir við fréttaflutninginn. „Ég hef bara ekki fengið andrými til að velta því fyrir mér," segir hann. „Ég hugsaði fyrst að þetta væri bara kjánalegt og datt ekki í hug að nokkur maður færi að velta þessu fyrir sér," segir Jón sem kom frá Brussel seint í gærkvöldi. „Ég hélt að hér væri mikil umræða um borgarafundinn sem haldinn var í gær um fátækt. Hérna var alveg troðið hús en það gafst ekki rými til að ræða það á borgarráðsfundinum áðan," segir Jón.



Ekkert rætt um fátækt

Jóni finnst sorglegt að tíma borgarráðs hafi verið eytt í þessi ummæli hans þegar staða heimilanna í borginni er jafn alvarleg og raun ber vitni. „Ég skammast mín meira fyrir það en þessi ummæli, að borgarráð skyldi ekki forgangsraða áhersluatriðum sínum í samræmi við það sem máli skiptir," segir Jón en borgarafundurinn sem BÓT stóð fyrir í Ráðhúsinu í gær komst ekki á dagskrá fundarins.

Stjórnmál eru leikaraskapur

„Íslensk stjórnmál eru í þeirri sorglegu stöðu að óviðeigandi maður er borgarstjóri. Stjórnmál eru að stórum hluta leikaraskapur og ég er ekki alveg búinn að læra leikreglurnar. En ég er alveg að ná þeim," segir hann.

Jón viðurkennir að það hafi verið sérstakt að fundur borgarráðs Reykjavíkurborgar hafi haft ummæli hans um klám á dagskrá sinni. „Jú, það var mjög sérstakt og frekar óþægilegt. Mér finnst líka leiðinlegt að það sé verið að útmála mig sem slæman mann. Ég er mikil friðarsinni," segir Jón.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×