Lífið

Sálin tekur upp með Stórsveit Reykjavíkur

Hljómsveitin Sálin hans Jóns míns gefur út sína fyrstu hljóðversplötu í fjögur ár fyrir næstu jól.
Hljómsveitin Sálin hans Jóns míns gefur út sína fyrstu hljóðversplötu í fjögur ár fyrir næstu jól.

Hljómsveitin Sálin hans Jóns míns gefur út sína fyrstu hljóðversplötu í fjögur ár fyrir næstu jól. Platan verður unnin með Stórsveit Reykjavíkur og mun Samúel Jón Samúelsson, sem hefur spilað töluvert með Sálinni, annast útsetningar. Upptökur hefjast í júlí.

„Það er mikið brass í Sálinni þannig að við ákváðum að fara með þetta alla leið," segir gítarleikarinn Guðmundur Jónsson. „Fyrsta platan okkar var í brassi og þetta er mikill og stór hluti af okkar sándi. Þetta passar alveg við það sem við höfum verið að gera. Við erum líka að reyna að víkka tónmálið okkar út."

Jóhann Hjörleifsson, trommari Sálarinnar, er einnig í Stórsveit Reykjavíkur og því þótti það vel við hæfi að fá hana í verkefnið. „Þetta verður ekki klassísk big band-músík heldur reynum við að hafa þetta blöndu af Stórsveitinni og Sálar-poppinu. Ég veit ekki hvernig þetta virkar en ég vona það besta. Það er alltaf gaman að geta tekið áhættu."

Kiddi í Hjálmum tekur plötuna upp í Hljóðrita, þar sem Sálin hefur áður unnið. „Það er mjög gaman að vinna með honum og taka upp í Hljóðrita. Það er langt síðan Sálin hefur unnið þarna og þetta er mjög skemmtilegt hljóðver."

Guðmundur vonast til að fyrsta lagið komi út í september og platan komi síðan út fyrir jólin. Sálin ætlar að vera dugleg við spilamennsku í sumar og næst spilar hún á Selfossi um helgina á mikilli hátíð þar í bæ. -fb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.