Innlent

Úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna innbrota

sumarbústaðir Mörg sumarbústaðahverfi hafa orðið fyrir barðinu á innbrotsþjófum.
sumarbústaðir Mörg sumarbústaðahverfi hafa orðið fyrir barðinu á innbrotsþjófum.

Ungur maður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 22. desember. Hann hefur undanfarin misseri farið hamförum við innbrot í sumarbústaði og verið óstöðvandi þrátt fyrir að lögregla hafi margoft haft afskipti af honum.

Mikil innbrotahrina í sumarbústaði á Suðurlandi hefur riðið yfir á síðustu mánuðum. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu bauð lögreglunni á Selfossi samstarf embættanna í að stöðva innbrotin.

Snemma á föstudagsmorgun þegar lögreglumenn voru í eftirlitsferð urðu þeir varir við kyrrstæða bifreið á Búrfellsvegi í Grímsnesi. Bifreiðinni var ekið af stað og lögreglumenn fylgdu henni eftir. Skömmu síðar sást að hlutum var kastað út úr bifreiðinni.

Þegar bifreiðin hafði verið stöðvuð kom í ljós að í henni voru tveir ungir menn. Annar þeirra, maður um tvítugt, var þekktur af fjölda innbrota í Árnessýslu síðast­liðið vor, eins og Fréttablaðið hefur fjallað um.

Mennirnir höfðu losað sig við flatskjá og fleira eftir að eftirförin hófst. Þeir voru handteknir og fluttir á lögreglustöðina á Selfossi og færðir í fangageymslu.

Þeir höfðu um nóttina brotist í fjóra bústaði við Álftavatn og Sogið. Annar mannanna játaði innbrotin en hinn, sem nú sætir síbrotagæslu, neitaði.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×