Innlent

Geir ritaði dómsmálaráðherra bréf

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geir Haarde er afar gagnrýninn á málsmeðferðina í landsdómsmálinu.
Geir Haarde er afar gagnrýninn á málsmeðferðina í landsdómsmálinu.
Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, vill að dómsmálaráðuneytið veiti sér nánari upplýsingar um aðkomu saksóknara Alþingis að samningu frumvarps um breytingar á lögum um landsdóm.

Í bréfi sem hann sendi ráðuneytinu í dag óskar hann eftir því að dómsmála- og mannréttindaráðuneytið afhendi sér án tafar afrit allra fyrirliggjandi gagna um samskipti saksóknara Alþingis og ráðuneytisins við frumvarpsgerðina. „Jafnframt er þess óskað að ég fái upplýsingar um og afrit af öllum samskiptum ráðuneytisins við forseta landsdóms af sama tilefni," segir Geir í bréfi til ráðuneytisins.

Þá hefur Geir jafnframt sent forseta landsdóms bréf þar sem hann mótmælir því harðlega að saksóknari Alþingis sé gerður að umsagnaraðila um kröfu sína um skipun verjanda. „Fyrir slíku er engin lagastoð og í lögum hvergi gert ráð fyrir atbeina saksóknara að þeirri skipun. Vegna þessa er það enn dregið á langinn að ástæðulausu að skipa mér verjanda lögum samkvæmt," segir Geir í bréfi sínu til forseta landsdóms. Í bréfinu til forseta landsdóms gagnrýnir hann líka aðkomu forseta dómsins af breytingum á lögum um landsdóms eftir að mál gegn sér var höfðað. „Að lágmarki hefði átt að upplýsa mig eða eftir atvikum skipaðan verjanda minn um fyrirætlanir forseta í þessu efni," segir Geir i bréfi til Ingibjargar Benediktsdóttur forseta landsdóms.

Þá sendi Geir einnig bréf á saksóknara Alþingis þar sem hann fer fram á að saksóknarinn upplýsi sig um aðkomu saksóknara að samningu frumvarpsins um breytingar á lögum um landsdóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×