Erlent

Reynt að stöðva viðræðurnar

Byggingarframkvæmdir Í Beitar Illit, byggð ísraelskra landtökumanna á Vesturbakkanum, halda framkvæmdir áfram þrátt fyrir frystingu í Jerúsalem.
fréttablaðið/AP
Byggingarframkvæmdir Í Beitar Illit, byggð ísraelskra landtökumanna á Vesturbakkanum, halda framkvæmdir áfram þrátt fyrir frystingu í Jerúsalem. fréttablaðið/AP

Herskáir Palestínumenn vörpuðu nokkrum sprengjum yfir landamærin til Ísraels. Ekkert tjón varð, enda heimatilbúnar sprengjurnar ekki með stýribúnað.

Ísraelar svöruðu samstundis með loftárásum á göng sem notuð hafa verið til að smygla vörum frá Egyptalandi yfir til Gasastrandar. Þar lét einn maður lífið og fjórir særðust, að sögn talsmanna Hamashreyfingarinnar, sem hefur farið með stjórnina á Gasa.

Herskáir Gasabúar hafa undanfarið hótað því að stöðva viðræður Ísraela og Palestínumanna, sem hófust í byrjun mánaðarins eftir að hafa legið niðri í tvö ár.

Viðræður héldu engu síður áfram í Jerúsalem í gær, þrátt fyrir að engin lausn væri í sjónmáli á deilum um framkvæmdir á vegum ísraelskra landtökumanna í austanverðri Jerúsalemborg.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínustjórnar, hefur sagt að viðræðunum verði sjálfhætt ef þær framkvæmdir hefjast á ný í lok mánaðarins, þegar tímabundið bann við þeim rennur út.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×