Fótbolti

Mourinho fékk þriggja leikja bann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mourinho setur sig í handjárnastellingar um helgina.
Mourinho setur sig í handjárnastellingar um helgina.

Aganefnd ítalska knattspyrnusambandsins hefur dæmt Portúgalann Jose Mourinho, þjálfara Inter, í þriggja leikja bann vegna hegðunar sinnar í leik Inter og Sampdoria um helgina.

Inter missti tvo leikmenn - Ivan Cordoba og Walter Samuel - af velli í fyrri hálfleik með rauð spjöld á bakinu.

Mourinho brást illa við á hliðarlínunni og sýndi ítrekað látbragð sem forystumönnum ítalskrar knattspyrnu fannst ekki viðeigandi.

Meðal annars þóttist Mourinho vera í handjárnum og hann hló sig síðan máttlausan er Samuel Eto´o vildi fá víti en fékk ekki. Þar átti reyndar aldrei að dæma vítaspyrnu.

Samuel og Cordoba fengu báðir eins leiks bann en þeir Esteban Cambiasso og Sulley Muntari fengu tveggja leikja bann.

Cambiasso reyndi að kýla leikmann Sampdoria á leið til búningsherbergja í leikhléi og Muntari hellti sér yfir dómarana þegar honum var skipt af velli í leiknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×