Enski boltinn

Ferguson lofar Michael Owen fleiri leikjum á næstu vikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen á bekknum.
Michael Owen á bekknum. Mynd/AFP

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur lofað Michael Owen því að hann fá fleiri leiki með liðinu á næstu vikum. Michael Owen hefur aðeins verið einu sinni í byrjunarliði Manchester United síðan að hann skoraði þrennu á móti Wolfsburg í Meistaradeildinni fyrir sex vikum síðan.

„Michael þarf að spila leiki og við erum að reyna að leysa það," sagði Sir Alex Ferguson.

„Það eru engin vandamál með hann en þetta snýst bara um að finna réttu blönduna af framherjum. Við viljum sjá Wayne Rooney í miðjunni og allir vita að Owen spilar alltaf á aftasta varnarmanni," sagði Ferguson og bætti við:

„Owen hreyfir sig frábærlega á síðasta þriðjungi vallarins en það er erfitt að velja tvo leikmenn sem vilja báðir vera fyrir framan markið," sagði Ferguson en hann vill helst ekki nota þá Owen og Rooney saman.

„Wayne getur samt ekki spilað alla leiki og það koma leikir þar sem owen fær sitt tækifæri," sagði Ferguson.

Michael Owen hefur alls spilað 14 leiki í ensku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim tvö mörk. Hann hefur hinsvegar aðeins verið í byrjunarliðinu í 4 af þessum leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×