Viðskipti innlent

Sólin skín fékk þrjá milljarða frá Baugi án veða

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Glitnir gerir kröfu upp á 8 milljarða króna í félagið Sólin skín, sem var eigu Baugs, Fons, Glitnis og Kevins Stanfords. Baugur Group lánaði fyrirtækinu þrjá milljarða króna án nokkurra trygginga. Sólin skín er gjaldþrota og fullkomlega eignalaust.

Sólin skín var úrskurðað gjaldþrota í lok síðasta árs. Tilgangur félagsins var að fjárfesta í hlutabréfum í bresku verslanakeðjunni Marks og Spencer. Kröfur í þrotabúið nema alls þrettán milljörðum króna. Þær gætu orðið hærri en frestur til að lýsa kröfum er ekki runninn út.

Skilanefnd Glitnis er að gera kröfu í búið upp á alls átta milljarða króna. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er um að ræða kröfur sem upphaflega voru til komnar vegna skuldabréfa, þ.e beinna lánveitinga Glitnis til félagsins en þessum kröfum virðist síðar hafa verið breytt í samninga um framvirk hlutabréfaviðskipti.

Þrotabú Baugs Group er að gera kröfur upp á þrjá milljarða króna á Sólina skín, en eftir því sem næst verður komist er þrotabú Sólarinnar fullkomlega eignalaust. Erlendur Gíslason, skiptastjóri þrotabús Baugs Group, sagði í samtali við fréttastofu að krafa þrotabús Baugs væri almenn krafa vegna lánveitinga.

Stefán Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri Baugs, sagði í samtali við fréttastofu að kröfur Glitnis hefðu eingöngu verið vegna framvirkra hlutabréfaviðskipta. Stefán sagði að Glitnir banki hefði gert veðkall á félagið rétt fyrir bankahrunið haustið 2008 og í kjölfarið selt hlutabréfin í Marks og Spencer. Hann sagði að bankinn þyrfti að svara því hvers vegna hann væri að gera kröfur í þrotabú Sólarinnar núna upp á átta milljarða króna. Ekki fengust svör við því hjá skilanefnd Glitnis í dag.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×