Heil umferð fer fram í Iceland Express deild í körfubolta í kvöld þegar önnur umferð A- og B-deildanna fer fram. Hamar og KR töpuðu í síðustu umferð og mætast í Hveragerði á sama tíma og tvö heitustu liðin, Keflavík og Grindavík, spila í Toyota-höllinni í Keflavík. Í B-deildinni mætast Valur-Njarðvík og Snæfell-Haukar. Allir leikirnir hefjast klukkan 19.15.
Lið Keflavíkur og Grindavíkur hafa leikið afar vel á síðustu vikum og þau mætast í Toytoa-höll þeirra Keflvíkinga þar sem hefur verið sannkölluð sláturtíð í gangi hjá karla- og kvennaliðum félagsins á nýju ári.
Keflavíkurkonur hafa verið á miklu skriði það sem af er árinu en liðið er búið að vinna alla sex leiki sína árið 2010 þar á meðal urðu þær fyrstar til þess að vinna topplið KR í deildinni en KR-konur unnu fjórtán fyrstu deildarleiki sína á tímabilinu.
Grindavíkurliðið hefur sett á svið þriggja stiga skotnýtingu í fyrstu fjórum leikjum sínum á árinu en alls hefur liðið skorað 48 þriggja stiga körfur í síðustu fjórum leikjum eða 12 að meðaltali í leik. Joanna Skiba er mætt á ný í Grindavík og eykur aðeins við ógnunina fyrir utan.
Keflavík
Grindavík