Viðskipti innlent

Bakkabræður að missa Bakkavör

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru að missa eignarhald sitt á Bakkavör. Þeir létu setja sérstök ákvæði í lánasamninga fyrirtækisins sem gera það að verkum að kröfuhafar Bakkavarar, sem nú eru að taka félagið yfir, geta ekki skipt um stjórnendur. Bræðurnir verða því áfram við stjórnvölinn, þrátt fyrir nýja eigendur.

Samkvæmt drögum að samkomulagi sem gengið hefur verið frá fyrir tilstuðlan ráðgjafafyrirtækisins THM Partners, sem ráðið var til að leiða til lykta ágreining milli kröfuhafa Bakkavarar, Exista og bræðranna, mun 39,4 prósenta hlutur bræðranna Bakkavör renna til kröfuhafa Exista, en Exista verður lagt niður í núverandi mynd eins og fréttastofa hefur greint frá.

Niðurstaðan um að færa hlutinn aftur í Exista var hluti af endurskipulagningu sem kynnt var kröfuhöfum Bakkavarar í Lundúnum fyrir rúmri viku síðan. Þess má geta að Exista lánaði bræðrunum fyrir kaupum á 39,6 prósenta hlutnum í Bakkavör í október 2008 með svokölluðu seljandaláni upp á 8,4 milljarða króna á mjög góðum kjörum og reiddu bræðurnir ekkert eigið fé fram við kaupin, en Bakkavör er skráð félag og hin 60 prósentin eru í eigu nokkur þúsund annarra hluthafa.

Hugmyndin er að bræðurnir fái að kaupa lítinn hlut í Bakkavör eftir fjögur til fimm ár þegar búið er að greiða ákveðið hlutfall af skuldum Bakkavarar en engar skuldir félagsins verða afskrifaðar. Ekki liggur fyrir á hvaða gengi bræðurnir fá að kaupa á og hversu stór hluti skuldanna þarf að vera greiddur áður en þeir fá að kaupa hlut, en rætt hefur verið um 50-70 prósent í því samhengi.

Kröfuhafar Bakkavarar, sem eru að mestu hinir sömu og Exista, þurfa að hafa bræðurna áfram við stórnvölinn tilneyddir því eftir að bræðurnir seldu sjálfum sér hlutinn í Bakkavör í fyrra voru sett inn sérstök ákvæði í lánasamninga Bakkavarar í Lundúnum sem gera það að verkum að lánveitendur geta gjaldfellt lán til félagsins ef það verður breyting á yfirstjórn fyrirtækisins. Um er að ræða svokölluð „change of control" ákvæði. Því verður Ágúst Guðmundsson áfram forstjóri Bakkavarar og Lýður verður áfram stjórnarformaður.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×