Enski boltinn

Wenger: Ætlum ekki að sleppa Fabregas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cesc Fabregas í leik með spænska landsliðinu.
Cesc Fabregas í leik með spænska landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að félagið sé harðákveðið í að halda Cesc Fabregas í röðum þess þrátt fyrir áhuga Barcelona.

Arsenal hafnaði boði frá Barcelona í síðustu viku en í síðasta mánuði fullyrtu enskir fjölmiðlar að Fabregas hefði gengið á fund Wenger og formlega beðið um að hann yrði seldur frá félaginu.

„Það sem er mikilvægast er að Fabregas eigi góðu gengi að fagna með spænska landsliðinu á HM," sagði Wenger. „Það skiptir líka máli að hann komi svo aftur til Arsenal og sýni að hann hafi vilja til að standa sig vel með félaginu."

„Við viljum halda okkar bestu leikmönnum og ég er harðákveðinn í því. Ég hef eytt mörgum árum í að byggja þetta lið upp og flestir leikmenn hafa verið hér frá því að þeir voru 16 eða 17 ára gamlir. Ég vil halda áfram að vinna með þeim."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×