Viðskipti erlent

Eigendur Eik Banki meðal stærstu skuldara bankans

Í ljós er komið að eigendur Eik banki í Færeyjum eru í hópi stærstu skuldara bankans. Jafnframt er ljóst að þessar skuldir þarf að afskrifa að fullu. Í frétt í viðskiptablaðinu Börsen segir að skuldin í heild nemi rúmum 400 milljónum danskra kr. eða hátt í níu milljörðum kr.

Það er Eik Grunnurinn, sjóður stofnfjáreigenda í Eik Banki, sem skuldar bankanum þessa fjárhæð og er um að ræða lán til eigendanna til kaupa á hlutum í bankanum með veði í hlutunum. Hlutirnir voru svo lagðir inn í bankann sem eigið fé hans. Þarna er á ferðinni þekkt viðskiptalíkan úr íslensku fjármálalífi fyrir hrunið haustið 2008.

Odd Bjellvåg nýr stjórnarformaður Eik Banki segir að ekki sé hægt að greiða þessa skuld þar sem veðin að baki henni séu orðin verðlaus. „Ég veit ekki í augnablikinu hvort hægt sé að semja um skuldina en það er dagljóst að sjóðurinn er gjaldþrota," segir Bjellvåg.

Á árinu 2005 skuldaði Eik Grunnurinn 27 milljónir danskra kr. Þessar skuldir blésu svo upp í 412 milljónir danskra kr. við lok árs í fyrra. Auk þess eru „aðrar skuldir" upp á 54 milljónir danskra kr. til staðar í sjóðnum. Nær allt þetta fé hefur verið fengið að láni hjá Eik Banki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×