Fótbolti

Solbakken: Þetta var bara lélegur norskur húmor

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ståle Solbakken og Pep Guardiola eftir leikinn í gær.
Ståle Solbakken og Pep Guardiola eftir leikinn í gær. Nordic Photos / AFP

Ståle Solbakken, þjálfari FC Kaupmannahafnar, segir ástæðu rifrildsins við Pep Guardiola, stjóra Barcelona, eftir leik liðanna í gær hafa verið honum sjálfum að kenna.

Forsaga málsins er sú að Jose Pinto, markvörður Barcelona, var dæmdur í tveggja leikja bann fyrir að flauta í fyrri leik liðanna á Nou Camp fyrir tveimur vikum síðan. Sóknarmaður FCK, sem var við það að sleppa í gegn, hætti leik þar sem að hann hélt að búið væri að flauta hann rangstæðan.

Á blaðamannafundi fyrir leik liðanna í gær sagði Solbakken að hann hefði viljað að Pinto hefði verið dæmdur í 5-6 leikja bann. Þau ummæli féllu í grýttan jarðveg hjá Guardiola.

„Hann hagaði sér ekki fagmannlega," sagði Guardiola við spænska fjölmiðla eftir leikinn. „Hann getur ekki beðið um að Pinto verði dæmdur í 5-6 leikja bann. Hann getur ekki sagt að hann sé skemmt epli. Þú verður að spyrja hann hvernig hann hagar sér á blaðamannafundum."

Eftir leikinn í gær neitaði Guardiola að taka í hönd Solbakken sem um leið hellti sér yfir Guardiola um leið og þeir gengu til búningsklefa.

Solbakken sagði síðar að hann hefði bara verið að grínast á áðurnefndum blaðamannafundi. „Ég veit ekki hvort hann misskildi þetta eða fékk rangar upplýsingar. En þetta var bara slæmur norskur brandari," sagði hinn norski Solbakken.

Solbakken sagði þó að hann bæri mikla virðingu fyrir Guardiola og sá spænski hrósaði einnig liði FCK eftir leikinn.

„Mér finnst leiðinlegt að við kláruðum ekki verkefnið en ég er ánægður með frammistöðu okkar. FCK er frábært lið með frábæran þjálfara. Ég hef aldrei á mínum þjálfaraferli hjá Barcelona mætt jafn líkamlega sterku liði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×