Handbolti

Gunnar: Getum verið stoltir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Aftureldingar.
Stuðningsmenn Aftureldingar. Mynd/Daníel
Gunnar Andrésson, þjálfari Aftureldingar, var afar ánægður með sigurinn á Selfossi í kvöld. Þar höfðu gestirnir úr Mosfellsbæ betur, 26-24.

„Mér fannst varnarleikurinn ágætur í dag en það var ákveðið hökt á sóknarleiknum," sagði Gunnar. „En við stigum ágætlega upp í seinni hálfleik."

„Það var rosalega mikill karakter í okkar liði að hafa náð sigrinum eftir að hafa lent þremur mörkum undir í seinni hálfleik. Það var gríðarlega gott að hafa náð að koma til baka úr þeirri stöðu. Við getum verið stoltir af því að hafa klárað leikinn á þennan máta."

Stuðningsmenn Aftureldingar voru fjölmennir á leiknum í kvöld og létu vel í sér heyra allan leikinn. Þeir virtust aldrei taka sér hvíldarstund á pöllunum.

„Það er ótrúlegt hvað það eru mikið af áhorfendum sem fylgja okkur. Það er mikil stemning og gleði í kringum þá."

„Það hefur verið mikil spenna og taugastrekkingur í leikmönnum í upphafi mótsins. Við erum nýliðar og erum að spila við andstæðinga sem við erum ekki vanir að spila við - þó svo að við þekkjum Selfyssinga vissulega vel. En ég held að þessi sviðsskrekkur sé nú búinn og við getum farið að hala inn fleiri stigum."

„Það er vissulega léttir að hafa náð fyrstu stigunum en það má ekki gleyma því að við höfum átt mjög erfiða leiki í haust. Við byrjuðum gegn FH og Akureyri á útivelli og fengum svo Haukana heima þar sem við vorum afar svekktir með að hafa ekki klárað þann þá."

„En það lýsir ótrúlega sterkri liðsheild að hafa komið á heimavöll Selfyssinga og tekið þaðan tvö stig. Það fara ekki öll lið héðan með tvö stig í vetur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×