Enski boltinn

Redknapp ekki að hugsa um Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Harry Redknapp segir að hann sé ekki að hugsa um neitt annað en að stýra Tottenham áfram á næstu leiktíð.

Redknapp hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Liverpool eftir að Rafael Benitez hætti hjá félaginu í síðustu viku.

Undir stjórn Redknapp náði Tottenham fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í vor og keppir því í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Liverpool, hins vegar, mátti sætta sig við sjöunda sætið og rétt skreið inn í Evrópudeild UEFA.

„Ég er ekki að hafna Liverpool því mér hefur ekki verið boðið starfið og ég hef ekki rætt við neinn um það," sagði Redknapp í samtali við enska fjölmiðla.

„Enda er engin þörf á því. Ég á eitt ár eftir af samningi mínum við Tottenham og ég er ekki að hugsa um neitt annað en að vera áfram á White Hart Lane á næsta tímabili," bætti hann við.

Forráðamenn Tottenham hafa ekki boðið Redknapp nýjan samning en hann segir það ekki skipta máli.

„Ég vil vera áfram hjá Tottenham enda er ég með samning við félagið. Ég myndi þó glaður skrifa undir nýjan samning ef það stæði til boða"








Fleiri fréttir

Sjá meira


×