Handbolti

Dagur spáir að Ísland og Frakkland mætist aftur í úrslitum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Nordic Photos / Bongarts
Dagur Sigurðsson spáir Íslandi góðu gengi á Evrópumeistaramótinu í handbolta sem hefst í Austurríki í næstu viku. Sjálfur er Dagur landsliðsþjálfari Austurríkis og sagði að það gæti brugðið til beggja vona hjá sínum mönnum.

Hann var spurður að því í viðtali við austurríska fjölmiðla hverja hann telur sigurstranglegasta á EM.

„Ég tel að sex til átta lið séu nokkuð jöfn að gæðum. Það kæmi mér þó ekki á óvart ef sömu lið, Frakkland og Ísland, myndu mætast í úrslitum og gerðu í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Peking."

Austurríkismenn mæta sjálfum Evrópumeisturunum, Danmörku, í fyrsta leik á þriðjudaginn. Dagur sagði að sínir leikmenn væru tilbúnir fyrir átökin. Austurríki er einnig með Íslandi og Serbíu í riðlinum.

„Leikmennirnir hafa trú á þessu og ég líka. Við megum ekki sýna neina hræðslu inn á vellinum og leikmenn geta hvergi falið sig," sagði Dagur og bætti við a hann væri þess fullviss að Austurríkismenn geti unnið öll liðin í riðlinum.

„En við getum líka tapað þeim öllum og runnið á afturendann. Ef allt hrynur í okkar leik og hitt liðið skorar tíu mörk í röð gegn okkur gæti það vel gerst að við töpum með 20 marka mun. En við munum fara í hvern einasta leik eins og hann væri sá síðasti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×