Fótbolti

Ribery hefur ekki áhyggjur af ferlinum vegna vændismálsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franck Ribery og kona hans Wahiba.
Franck Ribery og kona hans Wahiba. Mynd/AFP
Frakkinn Franck Ribery hefur ekki áhyggjur af framtíð sinni í fótboltanum þrátt fyrir að hafa verið ákærður fyrir samræði við vændiskonu sem var undir lögaldri. Ribery segist ekki hafa gert neitt rangt.

„Ég er ekki hræddur um framtíð mína eða hef áhyggjur af ferli mínum hvort sem það er hjá Bayern Munchen eða með franska landsliðinu," sagði Ribery í viðtali við Bild. „Ég vissi ekki af því að ég væri að brjóta lög," sagði Ribery.

Hinn 27 ára gamli leikmaður var yfirheyrður í sjö tíma á þriðjudaginn og hann hefur viðurkennt að hafa stundað kynlíf með vændiskonunni Zahia Dehar en jafnframt að hann hafi ekki vitað að hún væri ekki orðin 18 ára.

Franck Ribery borgaði flug og hótel fyrir Zahia Dehar þegar hún kom til hans á 26 ára afmælisdag hans í apríl 2009. Það er ólöglegt í bæði Frakklandi og Þýskalandi að vera með vændiskonu sem er undir 18 ára og refsingin er fimm ára fangelsi í Þýskalandi.

„Ég verð að komast í gegnum þennan erfiða tíma. Það verður ekki auðvelt en ég verð bara að gera það. Ég er leikmaður sem er áberandi í þjóðfélaginu og það er ekki alltaf auðvelt að lifa við með þeirri pressu. Pressan er gríðarleg," sagði Ribery.

„Ég vona að allt þetta tal um einkalíf mitt taki fljótt enda. Það mikilvægasta í mínu lífi er fótboltinn og vil fara að njóta fótboltans að nýju og fá að einbeita mér aftur af honum sem fyrst," sagði Franck Ribery.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×