Viðskipti erlent

Merkel og Sarkozy ítreka alþjóðlegan bankaskatt

Angela Merkel kanslari Þýskalands og Nicolas Sarkozy forseti Frakklands hafa ítrekað óskir sínar um að komið verði á fót alþjóðlegum bankaskatti. Skattinum er ætlað að koma í veg fyrir að bankahrun lendi á skattborgurum þess lands þar sem slíkt gerist.

Samkvæmt frétt um málið á BBC munu leiðtogarnir báðir kalla eftir þessum skatti í sameiginlegu bréfi til forseta G 20 ríkjanna fyrir fund G 20 í lok þessa mánaðar.

Fjármálaráðherrar G 20 ríkjanna voru orðnir afhuga bankaskattinum á fundi sínum fyrr í þessum mánuði en það eru þau Merkel og Sarkozy síður en svo ánægð með.

Margar ríkisstjórnir hafa lýst áhyggjum sínum af því að ef þessum bankaskatti verði komið á muni bankar einfaldlega flytja starfsemi sína til þeirra landa sem taka skattinn ekki upp.

Samkvæmt frétt á Reuters munu leiðtogar ESB samþykkja bankaskattinn í raun á fundi sínum þann 17. júní en síðan verður Það í höndum framkvæmdastjórnar ESB að útfæra skattinn nánar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×