Lífið

Týndar upptökur komnar í leitirnar

Örn Árnason, Sigurður Sigurjónsson og Karl Ágúst Úlfsson með týndu upptökurnar af Harry og Heimi. fréttablaðið/anton
Örn Árnason, Sigurður Sigurjónsson og Karl Ágúst Úlfsson með týndu upptökurnar af Harry og Heimi. fréttablaðið/anton
Leikararnir Örn Árnason, Sigurður Sigurjónsson og Karl Ágúst Úlfsson, mennirnir á bak við einkaspæjarana Harry og Heimi, fengu í gær afhendar týndar upptökur af tveimur útvarpsþáttum sínum frá árinu 1993.

„Þetta sparar okkur gríðarlega vinnu,“ segir Örn, alveg í skýjunum. Þeir félagar ætla að gefa út seinni þáttaseríu sína af Harry og Heimi á geisladiski í byrjun september og inniheldur hún fjörutíu þætti, eða yfir tvö hundruð mínútur. Þeir auglýstu á Bylgjunni, þar sem Harry og Heimi var útvarpað á sínum tíma, að þá vantaði tvo þætti í safnið sem höfðu glatast. „Við fórum þess á leit við hlustendur Bylgunnar að þeir gætu hjálpað okkur með þætti 33 og 34 og tveir menn gáfu sig fram,“ segir Örn. Þeir heita Björgvin Þór Björgvinsson og Guðmundur Sverrisson og höfðu þeir tekið þættina upp á kassettu á sínum tíma. „Við að sjálfsögðu erfum það ekki við þá heldur erum ánægðir með að þeir gátu hjálpað okkur að loka seríunni.“

Fyrri serían af Harry og Heimi kom út á geisladiski á síðasta ári og í framhaldinu settu þeir upp vel sótta leiksýningu í Borgarleikhúsinu síðasta haust, sem var byggð á seríunni sem nú kemur út. Sýningin gekk í heila sjö mánuði fyrir fullu húsi. Rúm tuttugu þúsund manns sáu hana á yfir hundrað sýningum, sem var mun meira en búist var við. Sýningin heldur áfram í haust fyrir þá sem eiga enn eftir að berja þessa stórskemmtilegu einkaspæjara augum. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.