„Ég er afar stoltur af stelpunum mínum, þær gáfu allt í seinni hálfleikinn og með réttu hefðum við átt að fá stig út úr þessum leik," sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari Blikastúlkna, eftir 2-1 tap gegn Íslandsmeisturum Vals í sannkölluðum toppslag.
„Við erum svekktar að ná engu út úr þessu, við börðumst og pressuðum hátt á vellinum sem gerði Valsstúlkur ráðalausar í seinni hálfleik. Við fengum færin en nýtum þau ekki."
Valsstúlkur komu afar ákveðnar til leiks og skoruðu á 15. mínútu en það virkaði sem köld vatnsgusa í Blikastúlkur, þær voru afar ákveðnar og spiluðu betur það sem eftir var leiks.
„Stelpurnar komu hræddar í leikinn, hvort sem það er pressan að mega ekki tapa eða ekki þá komum við hræddar í leikinn og Valur nýttu sér það. Eftir markið kom hinsvegar meiri ró yfir okkur og fengum færi sem við hefðum átt að klára og hefði munað gríðarlegu að skora mark í fyrri hálfleik."
Valsstúlkur nýttu sér klaufagang Blika og skoruðu annað mark rétt fyrir hálfleik, það reyndist dýrt enda sigurmarkið.
„Það var sárt að fá markið á sig rétt fyrir hálfleik, 2-0 er erfið staða gegn liði eins og Val sem kann vel að verjast og eru með sterkt lið."
Blikar féllu við þetta úr öðru sætinu niður í þriðja, sex stigum eftir Valsstúlkum en Jóhannes hefur fulla trú á stelpunum sínum.
„Við vitum vel hvað við getum, við eigum núna Fylkir, Þór/KA KR og fleiri í næstu leikjum sem við þurfum bara að klára. Það er margt í þessum leik sem við tökum vonandi í næstu leiki" sagði Jóhannes.