Lífið

Ískaldir tónar og lélegir brandarar á Hróarskeldu

Rokkararnir gerðu góða hluti á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku um síðustu helgi.
Rokkararnir gerðu góða hluti á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku um síðustu helgi.
Hljómsveitirnar Sólstafir og FM Belfast spiluðu á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku um síðustu helgi. Sólstafir fá góða dóma fyrir frammistöðu sína en misjafnar skoðanir eru um spilamennsku FM Belfast.

„Þetta gekk eins og í lygasögu. Það var allt fullkomið. Eina Spinal Tab-augnablikið var þegar bolirnir sem við vorum búnir að gera og komu frá Þýskalandi týndust,“ segir Aðalbjörn Tryggvason, söngvari og gítarleikari þungarokkssveitarinnar Sólstafir.

Sveitin spilaði á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku um helgina ásamt elektró-poppsveitinni FM Belfast. Einnig komu þar fram þekktar sveitir á borð við Muse, Gorillaz og Them Crooked Vultures. „Við fengum frábærar móttökur hjá tónleikahöldurunum og þetta var allt til fyrirmyndar. Það var fjölskylduhátíð hjá okkur. Við vorum með skyldmenni og vini í pikknikk rétt bak við sviðið. Það var alveg æðislegt,“ segir Aðalbjörn.

Sólstafir spiluðu á Pavilion-sviðinu á fimmtudagskvöldinu fyrir fullu tjaldi, eða um tvö þúsund manns, í um sjötíu mínútur og gengu tónleikarnir mjög vel. Í dómi sem birtist á dönsku tónlistarsíðunni Diskant.dk fær sveitin 8 af 10 mögulegum í einkunn, sem er ekki amalegt. „Þrátt fyrir að hljómsveitin hafi spilað ískalda tónlist var helvíti heitt á litla sviðinu,“ segir í dómnum. „Það var engin kreppa eða þunglyndi sem lá yfir hljómsveitinni eða áhorfendunum því bandið var í fínu formi og áhorfendurnir fylltust af krafti sem varð til þess að tjaldið lyftist nokkrum sinnum meðan á mestu látunum stóð.“

FM Belfast spilaði á sama sviði á laugardagskvöldinu en fékk misjafna dóma hjá dönsku pressunni. „Þegar hljómsveitin er upp á sitt besta er tónlistin heillandi á sinn barnalega hátt en þegar hún er hvað verst er hún nálægt því að hljóma eins og leiðindagaul. Því miður féll frammistaðan á laugardeginum oft í síðarnefnda flokkinn,“ sagði í dómi Metroexpress.dk. „Til þess að halda uppi orðspori sínu sem hress og skemmtileg tónleikasveit reyndi hljómsveitin að fá áhorfendur til að taka þátt í tónleikunum en gat því miður ekki hulið grundvallarvandamálið: FM Belfast reyndi að ná til allra og féll þess vegna í þá gryfju að segja lélega brandara og spila kjánaleg lög eftir aðra.“

Gagnrýnandi síðunnar Bandbace.dk var jákvæðari í garð hljómsveitarinnar. „FM Belfast spilar vel heppnaða elektróníska tónlist. Taktarnir eru negldir niður af millimetra nákvæmni og þú færð litlu, grípandi laglínurnar á heilann hvort sem þér líkar betur eða verr.“ freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.